Innlent

Gerir ekki athugasemd við sameiningu embætta

Um síðustu áramót voru embætti ríkisskattstjóra og níu skattstjóra víðs vegar um landið sameinuð í eitt. Þar með var landið gert að einu skattumdæmi.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin gerir ekki athugasemd við undirbúning sameiningarinnar. Hún hafi byggt á skýrum faglegum og fjárhagslegum markmiðum. Þá telur stofnunin að kostnaður vegna hennar muni rúmast innan fjárheimilda. Enn fremur liggi fyrir skýr verk- og tímaáætlun vegna hennar, segir í tilkynningu.

Ríkisendurskoðun bendir á að mikilvægt sé að stutt verði við starfsfólk í því breytingaferli sem framundan er hjá nýju sameinuðu embætti. Einnig sé brýnt að langtímastefnumótun verði lokið innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið. Þá sé mikilvægt að samrunaáætlunin verði endurmetin reglulega, segir í tilkynningunni.

Athugunin er liður í stærra verkefni Ríkisendurskoðunar sem miðar að því að meta hvernig áform ríkisstjórnarinnar um að endurskipuleggja opinbera þjónustu ganga eftir. Fyrri úttektir Ríkisendurskoðunar hafa sýnt að undirbúningi og framkvæmd sameiningar stofnana hefur oft verið ábótavant.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×