Innlent

Reykjavíkurborg keppir um Grænu borgina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir að um einstaka viðurkenningu fyrir Reykjavíkurborg sé að ræða. Mynd/ Rósa.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir að um einstaka viðurkenningu fyrir Reykjavíkurborg sé að ræða. Mynd/ Rósa.
Reykjavíkurborg hefur verið valin ein af sex evrópskum borgum sem keppa til úrslita um að vera Græna borgin í Evrópu árið 2012 eða 2013. Sautján borgir í tólf Evrópuríkjum sóttu um þessa eftirsóttu viðurkenningu og nú hafa sex þeirra komist í úrslit.

Með valinu vill Evrópusambandið leggja áherslu á mikilvægi borga sem lykilaðila í umhverfismálum. Viðurkenningin er aðeins veitt borgum sem hafa sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum, fylgt þeim vel eftir og verið öðrum góð fyrirmynd. Borgirnar eru metnar út frá nokkrum mælikvörðum, m.a. loftlagsmálum, samgöngum, grænum svæðum, loftgæðum, hávaða, úrgangsstjórnun og vatnsnotkun. Stokkhólmur er Græna borgin í Evrópu árið 2010 og Hamborg tekur við árið 2011. Reykjavíkurborg gæti orðið Græna borgin árin 2012 eða 2013.

„Þetta eru afar góðar fréttir og einstök viðurkenning fyrir Reykjavíkurborg," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í fréttatilkynningu. „Við teljum Reykjavíkurborg eiga fullt erindi í þennan hóp evrópskra borga vegna þeirra grænu skrefa sem við höfum verið að taka, umhverfis okkar, endurnýjanlegra orkugjafa, gæða drykkjarvatns og aðgengis að útivistarsvæðum svo eitthvað sé nefnt," bætir hún við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×