Innlent

Ellefu ára stelpa fær ekki dvalarleyfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur hefur vísað frá máli filippseyskrar konu sem hafði sótt um dvalarleyfi fyrir ellefu ára gamla bróðurdóttur sína. Útlendingastofnun hafði synjað stúlkunni um dvalarleyfi og dóms- og mannréttindamálaráðuneytið staðfest þá niðurstöðu. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti svo aftur niðurstöðu ráðuneytisins og var því ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Konan sem sótti um dvalarleyfi fyrir telpuna kvaðst upphaflega vera móðir hennar. Útlendingastofnun veitti þá barninu tímabundið dvalarleyfi á Íslandi frá 30. október 2006 til 1. september 2007. Í skýrslugjöf hjá lögreglu 6. mars 2007 viðurkenndi konan hins vegar að hún væri ekki móðir telpunnar. Í kjölfar þess var dvalarleyfi barnsins afturkallað með ákvörðun útlendingastofnunar í ágúst 2007.

Forsjá litlu telpunnar er nú í höndum fjölskyldunefndar. Ákvörðun Hæstaréttar um frávísun málsins byggir á því að það hafi ekki verið fjölskyldunefndin, sem fer með forræði stúlkunnar, sem hafi tekið ákvörðun um að áfrýja héraðsdómi í þágu barnsins. Taldi Hæstiréttur því að heimild skorti til áfrýjunar fyrir hönd telpunnar og var málinu þegar af þeim sökum vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti að því er hana varðaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×