Erlent

Brown stóð af sér storminn

Talið er að Gordon Brown forsætisráðherra Breta hafi staðið af sér uppreisn samflokksmanna sinna í gær. Tveir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Browns, þau Geoff Hoon og Patricia Hewitt hvöttu til þess í gær að þingmenn Verkamannaflokksins héldu leynilega kosningu þar sem skorið yrði úr um hvort Brown njóti enn trausts til þess að leiða flokkinn í komandi kosningum í vor.

Ákall ráðherranna fyrrverandi fékk hins vegar ekki sérstaklega góðar móttökur hjá núverandi ráðherrum og forystumönnum í flokknum og því er talið ólíklegt að af kosningunni verði. Utanríkisráðherrann David Milliband, sem margir telja að verði arftaki Browns lýsti í gær yfir stuðningi við formanninn og það hafa fleiri lykilráðherrar í ríkisstjórninni einnig gert.

Það vakti hins vegar mikla athygli í gær hve langur tími leið áður en stuðningsyfirlýsing Millibands barst en hún kom að lokum og var það að öllum líkindum síðasti naglinn í kistu uppreisnarmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×