Innlent

Afar fátt heillegt eftir í húsinu

Hverfisgata 28. Húsið er mjög laskað. Risið er nánast brunnið af og afgangur hússins gegnsósa af vatni. Fréttablaðið/gva
Hverfisgata 28. Húsið er mjög laskað. Risið er nánast brunnið af og afgangur hússins gegnsósa af vatni. Fréttablaðið/gva

Líklegt er talið að rekja megi eldinn sem upp kom á Hverfisgötu 28 í fyrrinótt til rafmagnsbilunar. Einn maður á þrítugsaldri lést í brunanum en fimm björguðust.

Ekki er ljóst út frá hverju eldurinn kviknaði en talið að orsökin sé rafmagnsbilun. Jafnvel er hugsanlegt að hann hafi kviknað á neðstu hæð hússins og borist upp í risið þar sem hann blossaði síðan upp.

Einn þeirra sem bjargaðist úr húsinu er Birkir Grétar Halldórsson. Hann fékk að fara inn í húsið í gær og huga að eigum sínum. Í ljós kom að hvorki eldur né reykur höfðu unnið teljanlegt tjón í hans íbúð, en vatnsskemmdir voru hins vegar gríðarlegar, það sama má segja um allt húsið. Flestar eigur hans eru ónýtar.

„Það var allt gegnsósa,“ segir Birkir, sem þó ætlar að reyna að þurrka einhverjar eigur og sjá hvort þeim verði bjargað þannig.

Fulltrúi frá tryggingarfélagi ætlar að kanna aðstæður í dag og mun þá koma í ljós hvort unnt er að gera við húsið eða hvort þarf að rífa það. Jafnvel er talið að vatnið hafi farið svo illa með þetta gamla timburhús að því verði ekki bjargað. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×