Innlent

Laun seðlabankastjóra rædd á Alþingi

Enn var þrengt að forsætisráðherra vegna launamála seðlabankastjóra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í Alþingi í dag. Forsætisráðherra svaraði gagnrýnisröddunum fullum hálsi.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Jóhönnu Sigurðardóttur hvað henni þætti um stjórnsýsluna í tengslum við launamál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, og hvort hún eða aðrir innan Samfylkingarinnar hefðu gefið Seðlabankastjóra nokkur fyrirheit um laun. Jóhanna sagði hins vegar allar upplýsingar hafa komið fram í málinu.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, steig næstur í ræðustól og sagði forsætisráðherra í standandi vandræðum vegna launamála seðlabankastjóra. Hann sagðist hafa traustar heimildir fyrir því að fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráði Seðlabankans hefðu ákveðið að hafa ákvörðun kjararáðs að engu og greiða Seðlabankastjóra út launahækkun upp á 400 þúsund á mánuði. Ragnar Arnalds, varaformaður bankaráðs seðlabankans, vísaði þessu á bug í samtali við fréttastofu og sagði ekkert hafa verið ákveðið um að hækka laun seðlabankastjóra, og engar tillögur þess efnis lægju fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×