Innlent

Listabókstaf vantaði í klefann

Frambjóðendur Þrír af frambjóðendum Næstbesta flokksins, Erla Karlsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Benedikt Nikulás Anes Ketilsson.mynd/arnar halldórsson
Frambjóðendur Þrír af frambjóðendum Næstbesta flokksins, Erla Karlsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Benedikt Nikulás Anes Ketilsson.mynd/arnar halldórsson

kosningar Kjósandi í Kópavogi sem hugðist greiða Næstbesta flokknum atkvæði furðaði sig á því að aðeins voru stimplar með listabókstöfum fjórflokkanna í kjörklefa Sýslumannsins í Kópavogi. Þurfti hann að spyrjast fyrir hverju þetta sætti. Sjö flokkar bjóða fram í kosningunum 29. maí.

„Atvikið vekur fyrst og fremst spurningar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar,“ segir Hjálmar Hjálmarsson, oddviti Næstbesta flokksins, og bendir á að stimplar með listabókstöfum sendi kjósendum viss skilaboð, vitað mál sé að þeir séu misvel upplýstir.

„Það er líka umhugsunarefni að utankjörfundaratkvæðagreiðslan hefst svo löngu áður en öll framboðin liggja fyrir,“ segir hann.

Þær upplýsingar fengust hjá Sýslumanninum í Kópavogi að málið hafi leyst farsællega, en framboð Næstbesta flokksins, sem fékk listabókstafinn X, hafi komið svo seint fram að ekki hafi unnist tími til að útbúa stimpil.

Jón Atli Kristjánsson, formaður kjörstjórnar í Kópavogi, telur fráleitt að það hafi áhrif á kosninguna þótt stimpill sé ekki til staðar.

„Kjósandi skrifar einfaldlega niður hvað hann ætlar að kjósa með eigin hendi.“ - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×