Innlent

Vildi heimildarmann gegn kröfu um fésekt

Óskar Hrafn Þorvaldsson. Fréttastjóri Stöðvar 2 segist velta fyrir sér hvort saksóknari reki mál gegn fréttastofunni vegna særðs stolts eftir fréttir af mistökum í sönnunarfærslu.Fréttablaðið/Anton
Óskar Hrafn Þorvaldsson. Fréttastjóri Stöðvar 2 segist velta fyrir sér hvort saksóknari reki mál gegn fréttastofunni vegna særðs stolts eftir fréttir af mistökum í sönnunarfærslu.Fréttablaðið/Anton

Ríkissaksóknari vill að Héraðsdómur Reykjaness leggi réttarfarssekt á tvo fréttamenn Stöðvar 2 vegna upplýsinga sem birtar voru úr lokuðu þinghaldi um meint mansal á litháískri stúlku til Íslands.

„Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari bauð mér að sektarkrafan yrði felld niður gegn því að við létum hana hafa nöfn heimildarmanna okkar. Það kom auðvitað ekki til greina,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2.

Kolbrún staðfestir að hún hafi boðist til að falla frá því að setja fram sektarkröfuna ef Óskar upplýsti um heimildarmenn Stöðvar 2. Þetta hafi hún sagt þegar Óskar hringdi í hana eftir að hún óskaði eftir upptökum af fréttum um málið. „Ég sagði að þá myndi ég ekki gera þessa kröfu. En ég veit að sjálfsögðu ekki hvað dómarinn myndi gera því samkvæmt lögum getur hann lagt á réttarfarssektir að eigin frumkvæði.“

Óskar hafði kært úrskurð dómara um að þinghaldið yrði lokað en Hæstiréttur vísaði kærunni frá. Ljóst er að upplýsingar fréttastofunnar úr þinghaldinu eru frá einhverjum sem var viðstaddur. Aðspurð hvort reyna eigi að finna þann sem upplýsti Stöð 2 um það sem fram fór í héraðsdómi segir Kolbrún það vera í vinnslu. „En ég veit ekki hvort það skili árangri. Ef fréttamennirnir upplýsa ekki um sína heimildarmenn er auðvitað mjög erfitt að rannsaka það,“ svarar hún.

Óskar Hrafn viðurkennir að Stöð 2 hafi brotið gegn lögunum. „En það var óviljandi gert og við munum að sjálfsögðu greiða þá sekt sem við kunnum að verða dæmdir í. Hins vegar velti ég fyrir mér ástæðunni fyrir þessum málarekstri gegn okkur. Við birtum frétt af framburði stúlkunnar á þriðjudagskvöld án þess að athugasemdir væru gerðar við það. Á miðvikudagskvöldið birtum við síðan frétt um að þinghaldinu hafi verið frestað að kröfu saksóknarans vegna galla í sönnunarfærslu hans. Strax morguninn eftir kom þessi sektarkrafa fram. Það skyldi þó ekki vera að sært stolt saksóknarans vegi þyngra í þessu máli heldur en umhyggja hennar fyrir 11. grein laga um meðferð sakamála?“ segir Óskar.

Kolbrún vísar á bug fullyrðingum Óskars um sært stolt. „Þetta finnst mér ómálefnalegt. Ég er einfaldlega að vinna mína vinnu,“ segir saksóknarinn sem bætir við að eftirleiðis muni annar saksóknari við embættið fylgja sektarmálinu eftir. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×