Innlent

Kona ók á litla hnátu og stakk svo af

Sandra og Rannveig Ögn Sem betur fer slapp Rannveig Ögn með mar á öxlinni eftir að ekið var á hana við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á laugardaginn.Fréttablaðið/Valli
Sandra og Rannveig Ögn Sem betur fer slapp Rannveig Ögn með mar á öxlinni eftir að ekið var á hana við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á laugardaginn.Fréttablaðið/Valli
„Hún var að vakna grátandi í tvær nætur með verki en hún slapp samt ótrúlega vel, greyið litla," segir Sandra Hraunfjörð, móðir sjö ára stúlku sem varð fyrir bíl um síðustu helgi.

Sandra og eiginmaður hennar voru með þrjú barna sinna á skemmtun Stöðvar 2 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum á laugardaginn. Rétt fyrir klukkan fjögur yfirgáfu þau garðinn. „Þá kom kona á silfurgráum smábíl og keyrði á stelpuna mína þannig að hliðarspegill skall í öxlinni á henni og það heyrðist smellur," lýsir Sandra sem kveðst hafa sinnt börnununum á meðan maður hennar tók konuna á gráa bílnum tali. „Hún skrúfaði aðeins niður rúðuna og spurði hvort það væri ekki allt í lagi með stelpuna. Ég held ekki, svaraði maðurinn minn, en þá stakk hún bara af."

Sandra segir að í ljós hafi komið við skoðun á sjúkrahúsi að dóttir hennar, Rannveig Ögn Jónsdóttir, var marin á öxl við viðbeinið. „Hún er bara í losti - trúir því ekki að konan hafi bara stungið af," segir Sandra sem kveður lögreglu hafa sagst mundu auglýsa eftir konunni. Hún biður ökumann lítils sendibíls sem þeytti flautu sína fyrir aftan slysstaðinn að veita upplýsingar ef hann telji þær geta gagnast. „Fólk á ekki að stinga af ef það keyrir á börn," segir Sandra og skorar á konunna sem ók á dóttur hennar að gefa sig fram. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×