Innlent

Aðhald eflir hagvöxtinn meira en skattar

AGS vekur mismikla hrifningu hjá fólki. Myndin er frá mótmælum í sumar gegn aðkomu sjóðsins hér. Fulltrúar sjóðsins segjast vera stjórnvöldum til ráðgjafar um leiðir í efnahagsmálum. Ákvarðanir séu hins vegar stjórnvalda. Fréttablaðið/Anton
AGS vekur mismikla hrifningu hjá fólki. Myndin er frá mótmælum í sumar gegn aðkomu sjóðsins hér. Fulltrúar sjóðsins segjast vera stjórnvöldum til ráðgjafar um leiðir í efnahagsmálum. Ákvarðanir séu hins vegar stjórnvalda. Fréttablaðið/Anton
Niðurstöður úr reiknilíkani AGS benda til þess að hagvöxtur verði meiri, verði hlutfall niðurskurðar hjá ríkinu aukið á kostnað skattahækkana. Aðhald launaútgjalda ýti undir hærra atvinnustig, en kalli á samstarf við verkalýðsfélög.

Aðgerðir í fjármálum hins opinbera sem byggja í meiri mæli á niðurskurði en skattahækkunum leiða til merkjanlega aukins hagvaxtar, samkvæmt þjóðhagsreiknilíkani Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Í skýrslu sendinefndar AGS í tengslum við þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands segir að aðgerðir í fjármálum hins opinbera sem byggðu að 80 prósentum á niðurskurði og að fimmtungi á skattahækkunum myndu að líkindum skila 0,25 prósentustigum meiri hagvexti á árunum 2011 til 2015 en blönduð leið sem byggði til jafns á niðurskurði og gjaldahækkunum. Þá myndi slík leið skila 0,75 prósentustigum meiri hagvexti en leið þar sem áhersla væri meiri á aukna skattheimtu.

Vísað er til þess að stjórnvöld geri ráð fyrir því að marka stefnuna í ríkisfjármálum núna í haust. Þá kemur fram í skýrslunni að til þess að ná markmiðum um aðhald í ríkisfjármálum til miðlungslangs tíma verði að koma til viðbótar­aðhaldsaðgerðir sem nemi þremur prósentum af landsframleiðslu á árunum 2012 og 2013.

„Á Íslandi er breið samstaða um að í aðgerðunum eigi að vera jafnvægi milli tekjuauka ríkisins og niðurskurðar útgjalda. Mun minni samstaða er um til hvaða aðgerða eigi að grípa,“ segir í skýrslunni. Þar kemur jafnframt fram að stjórnvöld og sendinefnd sjóðsins hafi verið sammála um að ólíkar nálganir í aðhaldi í ríkisfjármálum fælu í sér ólíka þjóðhagslega niðurstöðu, með hliðsjón af séríslenskum aðstæðum.

Þannig gæti óhóflega mikil áhersla á fjármagns- og fyrirtækjaskatta sett fjárfestingu skorður, en snörp hækkun neysluskatta myndi valda tímabundinni verðbólgu, sem um leið myndi auka verðtryggðar skuldir. Þá myndi ofuráhersla á niðurskurð opinberrar fjárfestingar hafa neikvæð áhrif á fjárfestingu í einkageira og viðvarandi langtímavöxt.

„Áhersla á aðhald launa og réttindagreiðslna gæti haft góð áhrif á vinnumarkaðinn, haldið aftur af launakostnaði og ýtt undir hærra atvinnustig,“ segir í skýrslu AGS. Sú leið er þó sögð kalla á áframhaldandi samstarf við verkalýðsfélög.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×