Innlent

Um 900 Kópavogsbúar strikuðu Gunnar út

Alls var 1483 atkvæðum sjálfstæðismanna í Kópavogi breytt eða 36% þeirra atkvæða sem flokkurinn fékk í kosningunum fyrir viku. Samtals var 1745 atkvæðum í bæjarfélaginu breytt ýmist með því að strika út nöfn frambjóðenda eða með því að færa þá til um sæti.

Hjá sjálfstæðismönnum var nafn Gunnars I. Birgissonar, 3. sæti, oftast strikað út en það gerðu 897 kjósendur og nafn Ármanns Kr. Ólafssonar, oddvita listans, var næst oftast strikað út, en það gerðu 697 kjósendur. Alls 57 strikuðu út nafn Hildar Dungal, 2. sæti, en 639 settu hana í 1. sæti. Alls 138 settu Gunnar I. Birgisson í fyrsta sæti listans.

Alls 111 atkvæðum Samfylkingarinnar var breytt eða 3% atkvæða flokksins. Alls 88 atkvæðum Framsóknarflokksins var breytt eða 9% atkvæða flokksins. Alls 29 atkvæðum Vinstri grænna var breytt eða 2% atkvæða flokksins. Þá var 18 atkvæðum Næstbesta flokksins breytt eða 1% atkvæða flokksins. Alls 15 atkvæðum var breytt hjá Lista Kópavogsbúa, eða 1% og einu atkvæði var breytt hjá Frjálslynda flokksins.

Hjá Framsóknarflokknum var nafn Ómars Stefánssonar oddvita oftast strikað út en það gerði 61 kjósandi flokksins. Hjá Samfylkingu var nafn Guðríðar Arnardóttur, oddvita listans, oftast strikað út en það gerðu 28 kjósendur framboðsins. Hjá Vinstri grænum var nafn Ólafs Þórs Gunnarssonar oddvita oftast strikað út en það gerðu 12 kjósendur.

Hjá Lista Kópavogsbúa var nafn Rannveigar H. Ásgeirsdóttur oddvita oftast strikað út en það gerðu sjö kjósendur framboðsins. Hjá Næstbesta flokknum var nafn Hjálmars Hjálmarssonar oddvita oftast strikað út en það gerðu einnig sjö kjósendur.

Engar útstrikanir voru gerðar á lista Frjálslynda flokksins en einn kjósandi færði oddvitann, Helga Helgason, niður um eitt sæti.

Samtals voru 13.734 gild atkvæði í Kópavogi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×