Innlent

Jón Gnarr: Erum ekki á móti Sjálfstæðisflokknum

Jón tekur við sem borgarstjóri af Hönnu Birnu um miðjan mánuðinn.
Jón tekur við sem borgarstjóri af Hönnu Birnu um miðjan mánuðinn. Mynd/Daníel Rúnarsson

Jón Gnarr, formaður Besta flokksins og tilvonandi borgarstjóri, segir Besta flokknum ekki stefnt gegn Sjálfstæðisflokknum. Reynt verði að vinna að stjórn borgarinnar í góðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta sagði Jón í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í dag.

„Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að við erum að fá mikið fylgi frá Vinstri grænum og Samfylkingunni og eitthvað frá Sjálfstæðisflokknum," sagði Jón og bætti við: „Við ætlum að reyna að vinna þetta í eins góðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og mögulegt er. Við höfum fullan áhuga á því."

Jón sagði mikla vænisýki einkenna stjórnmálin og tók sem dæmi þegar ónefndir spunamenn á vegum flokkanna hafi í kosningabaráttunni líkt Besta flokknum við uppgang þýskra nasista og stuðning Ítala við flokk Silvio Berlusconi, forsætisráðherra landsins.

„Ég hef þurft að fara mjög varlega og þess vegna höfum við unnið þetta eins og höfum unnið þetta," sagði Jón. Af þeim sökum leitaði flokkurinn eftir samstarfi við Samfylkinguna.

Jón sagði að flokkarnir miði við að málefnaáherslur meirihlutans muni liggi fyrir í lok vikunnar.

Þá kom fram í máli Jóns að hann greiddi atkvæði gegn Icesavelögunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hann sagði að umræðan og málið væri dæmi um mál sem enginn skyldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×