Innlent

Íslendingar í Noregi í sálgæslu eftir hrunið

Íslendingar í Noregi sækja mikið í sálgæslu til prests íslenska safnaðarins.
Íslendingar í Noregi sækja mikið í sálgæslu til prests íslenska safnaðarins.
Mikið annríki hefur verið hjá íslenska söfnuðinum í Noregi síðustu misseri með sívaxandi fjölda Íslendinga sem flytjast þangað búferlum. Gildir það jafnt um messuhald og önnur hefðbundin störf, en einnig um sálgæslu.

Straumurinn til Noregs er síst að minnka, en það sem af er ári hafa 830 flutt þangað, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, að frádregnum þeim sem hafa flutt aftur heim.

Samkvæmt tölum frá norsku hagstofunni voru tæplega 5.000 Íslendingar búsettir í Noregi í upphafi árs.

„Við erum ekki í þeirri aðstöðu að þurfa að bæta við öðrum presti, en það gæti komið til þess að við fengjum prest til að fara í messuferðir eða þess háttar," segir Arna Grétarsdóttir, prestur safnaðarins, í samtali við Fréttablaðið. Þó er verið að meta það hvort þörf sé á að lengja afgreiðslutíma skrifstofu safnaðarins.

Aðspurð segir Arna að mikil aukning hafi verið í ásókn að sálgæslu undanfarið þó að misjafnlega sé komið fyrir þeim nýfluttu.

„Það er leitað mikið til mín og það hefur verið gríðarleg aukning í sálgæslu. Það orsakast kannski af því að fólk er margt að flytja úr erfiðleikum og basli og við það bætast búferlaflutningar, nýtt tungumál, ný vinna og breyttar aðstæður." Hún bætir því við að hún telji að Íslendingar eigi auðvelt með að leita til presta ef þeim finnst þeir vera hjálpar þurfi og það sé af hinu góða.

Arna segir fólk eiga miserfitt með að aðlaga sig að búsetu í nýju landi þar sem tungumálaerfiðleikar einkenna gjarnan fyrsta árið eða svo.

„Það má segja að það séu tveir hópar sem hafa verið að flytja til Noregs upp á síðkastið. Annars vegar fólk sem hefur búið áður á Norðurlöndunum og það er mun auðveldara fyrir þann hóp að aðlagast. Það kann tungumálið og hefur jafnvel menntað sig hér. Hinn hópurinn er svo bara með skóladönskuna, og það tekur hann auðvitað lengri tíma að ná málinu."

Arna segir annars að Íslendingar eigi nokkuð auðvelt með að fá vinnu í Noregi, enda lítil kreppustemning þar í landi og straumurinn haldi því áfram.

„Það virðist vera næga vinnu að fá á vesturströndinni, í nágrenni Bergen og Stavanger, og svo í Norður-Noregi, en það er erfiðara að fá vinnu hér á Óslóarsvæðinu."

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×