Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Okkur vantar markaskorara

Jón Júlíus Karlsson skrifar

„Við endum tímabilið illa og frammistaðan í dag endurspeglar tímabilið hjá okkur. Þetta hefur verið afar kaflaskipt hjá okkur í sumar og það er ljóst að Valur verður að ná stöðugleika ef liðið á að keppa um titla,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Vals, eftir tap liðsins gegn Haukum, 2-1.

„Við reyndum að ná jöfnunarmarkinu en þetta féll ekki með okkur. Við fengum smá líf í sóknarleikinn hjá okkur þegar að Mattías (Guðmundsson) kom inn á og það er jákvætt fyrir félagið að hann sé orðinn heill á ný,“ segir Gunnlaugur sem viðurkennir að félaginu skorti sárlega markaskorara.

„Okkur vantar markaskorara skorar 10-12 mörk á tímabili ef liðið ætlar að blanda sér í toppbaráttuna. Það er eitt af mörgu sem þarf að laga hér að Hlíðarenda.“

Mikið hefur verið rætt og skrifað um hvort að Gunnlaugur verður áfram með liðið. Deilur urðu til þess að mannabreytingar urðu á stjórn félagsins. Gunnlaugur veit ekki hvort hann verður áfram í brúnni að Hlíðarenda. „Það er ekki komið í ljós hvort ég verði áfram og við einbeittum okkur að því að klára tímabilið. Ég mun setjast niður með stjórninni eftir helgi og við sjáum til hvort við náum saman.“

 

 



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×