Innlent

Gera ráð fyrir að lögreglumönnum fækki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnvöld gera ráð fyrir fækkun lögreglumanna. Mynd/ Pjetur.
Stjórnvöld gera ráð fyrir fækkun lögreglumanna. Mynd/ Pjetur.
Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að lögreglumönnum og öðru starfsfólki lögreglunnar fækki á næstu árum. Þetta verði gert með því að nánast engar nýráðningar komi á móti fækkun vegna þeirra starfsmanna sem fara á eftirlaun eða hverfa til annarra starfa. Þetta kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um nýtt frumvarp um breytingar á lögreglulögum sem dómsmálaráðherra mælti fyrir á föstudaginn.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að löggæsla verði að fullu aðskilin frá sýslumannsembættum og lögregluumdæmin stækkuð og þeim fækkað úr 15 í 6. Gert er ráð fyrir að verkefni ríkislögreglustjóra verði endurmetin til þess að ná fram aukinni samlegð og fækkun í yfirstjórn. Markmið breytinganna eru í meginatriðum tvíþætt, annars vegar að ná fram hagræðingu í rekstri og hins vegar að auka faglega burði lögreglunnar á landsbyggðinni.

Fjármálaráðuneytið segir að með þessu sé leitast við að ná fram betri stýringu á fjárveitingum til lögreglunnar, sérstaklega í ljósi þess að fjárveitingar komi til með að dragast saman á næstu árum. Gera megi ráð fyrir að það gerist með fækkun yfirmanna vegna sameinaðra lögregluumdæma, með því að ráða ekki í þær stöður sem losni, með samþættingu verkefna á landsvísu og endurskipulagningar á innkaupaferli lögreglunnar, auk þess sem fjármunum verði betur skipt eftir íbúafjölda og umferðar í hverju umdæmi.

Fjármálaráðuneytið segir að verði frumvarpið óbreytt að lögum megi gera ráð fyrir að heildarsparnaður geti orðið á bilinu 330-450 milljónir króna á ári. Allt eftir því hvað starfsmönnum verði fækkað mikið í samræmi við möguleika sem frumvarpið skapi. Hins vegar liggi ekki fyrir mat á mannaflsþörf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×