Innlent

Eignir Landsbanka að fullu uppi í Icesave skuldir

Heimir Már Pétursson skrifar
Íslendingar munu krefjast þess að Icesave skuldbinding Íslands njóti forgangs við greiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans en eignir þess gætu dugað til að standa undir hlut Íslands. Þá verði engir vextir greiddir vegna skuldbindingarinnar.

Kristrún Heimisdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þáverandi utanríkisráðherra sagði í Fréttablaðinu um helgina að svo virðist sem núverandi ríkisstjórn hafi tekið Icesave málið út úr hinum pólitíska farvegi sem Brussel viðmiðin fólu í sér. Formaður Framsóknarflokksins tekur undir þetta.

„En núna vorum við að reyna að færa umræðuna frá því sem hefur gerst að framtíðinni," segir Sigmundur Davíð. Allir flokkar hafi verið farnir að ná saman um það. Þess vegna hafi innlegg Indriða verið mjög óheppilegt. „Þar sem hann vegur eina ferðina enn að stöðu Íslands í málinu."

Sigmundur segir að vonandi komist málið aftur í pólitískan farveg með sameiginlegri aðkomu stjórnar og stjórnarandstöðu.

Í núgildandi Icesave lögum er gert ráð fyrir að eignir þrotabús gamla Landsbankans skiptist milli Íslands, Bretlands og Hollands frá fyrstu krónu. Skuldbinding Íslands vegna lágmarks innistæðna er metin á um 700 milljarða sem síðan bætast á 5,55 prósenta vextir.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar mun ný samninganefnd krefjast þess að skuldbinding Íslands njóti forgangs þegar kemur að eignum bankans, sem almennt eru taldar verða yfir 1.000 milljarðar. Þá verði engir vextir greiddir af skuldbindingunni.

Formaður Framsóknarflokksins vill ekki staðfesta þetta en er bjartsýnn á að samningaviðræður geti hafist í fljótlega.

„Ef ríkisstjórninni er alvara með það sem hún hefur sagt í málinu að undanförnu. Þá getum við byrjað mjög fljótt en ómögulegt er að segja til um hversu langan tíma viðræðurnar sjálfar taka," segir Sigmundur Davíð. Jafnvel þótt Alþingi næði að samþiggja nýjan Icesave samning og afnema fyrri lög, séu menn ekki á einu máli um hvort við hæfi sé að blása þjóðaratkvæðagreiðsluna af. Sumir telji hana réttu leiðina til að fella lögin úr gildi.

„Enda sé forsetinn búinn að vísa málinu í þann farveg. Þannig að það er eitthvað sem menn verða að meta," segir Sigmundur. En áfram sé gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni, þótt Alþingi geti að sjálfsögðu breytt lögum sem það hefur sett.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×