Innlent

Skuldar þrjár milljónir í leikskólagjöld með 560 þúsund á mánuði

Breki Logason skrifar

Einstæð fimm barna móðir sem er öryrki er með rúmar 560 þúsund krónur í samanlagðar tekjur á mánuði en skuldar engu að síður 4,6 milljónir í húsaleigu og leikskólagjöld. Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms þess efnis að börn hennar yrðu vistuð annarsstaðar tímabundið vegna vanrækslu og líkamlegs ofbeldis.

Hæstiréttur var í raun að staðfesta úrskurði Barnaverndar Reykjavíkur þar sem mælt var með því að fimm börn konunnar yrðu vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði. Í úrskurðinum kemur fram að börnin hafi sætt líkamlegu ofbeldi af hálfu móður sinnar. Þegar barnaverndarnefnd fór að kanna málið játaði konan að hafa beitt eitt barna sinna líkamlegu ofbeldi en í heimsókn starfsmanns á heimilið viðurkenndi konan að hún byggi við bágan fjárhag og gæti ekki tryggt börnum sínum leikskólavist eða öruggt húaskjól. Hún viðurkenndi einnig að hafa átt við spilafíkn að stríða.

Það vekur ekki síst athygli í þessu samhengi að meðal gagna málsins fyrir dómi var afrit bréfs þjónustumiðstöðvar sem fjallaði um fjárhag hennar. Þar kemur fram meðal annars fram að samanlagðar tekjur hennar af fjárhagsaðstoð, örorkubótum, greiðslum með börnum og húsaleigubótum nemi 563.197 krónum á mánuði en föst útgjöld nemi 213.000 krónum. Því séu ráðstöfunartekjur sóknaraðila 350.197 á mánuði. Þá kemur ennfremur fram að konan skuldi 3.000.000 króna vegna leikskóla og 1.600.000 krónur í húsaleigu.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að tvö eldri börn konunnar verði vistuð á heimili föður þeirra, en hin þrjú yngri á Vistheimili barna í allt að tvo mánuði.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×