Innlent

Íslenski skálinn slær í gegn í Sjanghæ

Gestir heimssýningarinnar í röð við íslenska skálann.
Gestir heimssýningarinnar í röð við íslenska skálann.

Heildarfjöldi gesta íslenska skálans á heimssýningunni í Sjanghæ í Kína fór fram úr fjölda Íslendinga fyrir viku en alls höfðu 356.219 manns heimsótt skálann þá.

„Viðtökurnar við íslenska skálanum hafa verið framar öllum vonum. Við vissum að við værum með góða afurð í höndunum en hér er fullt hús alla daga. Ég held ég geti slegið því föstu að hingað muni alls koma tvær milljónir Kínverja,“ sagði Hreinn Pálsson framkvæmdastjóri þátttöku Íslands í heimssýningunni og aðalræðismaður Íslands í Kína.

Íslenski skálinn er eins og ísmoli í laginu og er honum ætlað að skapa ímynd jökuls. Notaðar eru ljósmyndir af íslenskum jökulís í nærmynd þannig að greinilega má sjá smáatriðin í ísnum. Inni í skálanum er lofthiti mun lægri en venja er innandyra í Sjanghæ og þar er að finna íslensk fjallagrös til að gefa gestum skálans þá tilfinningu að þeir séu skyndilega komnir til Íslands. Átta mínútna stuttmynd um Ísland er varpað á veggi og loft skálans og eru gestirnir því umluktir myndum og hljóði.

„Þetta myndband okkar er bara listaverk. Á tveimur eða þremur stöðum í myndbandinu heyrir maður gesti skálans yfirleitt segja vá. Við erum nú farin að venjast þessu en ég hef ekki séð neitt þessu líkt í öðrum skálum,“ sagði Hreinn. Aðspurður um hvaða ástæður hann héldi að væru fyrir þessum viðtökum sagði Hreinn að fréttir frá Íslandi um efnahagsmál og eldgosið spiluðu inn í en þar fyrir utan hefðu þau notið góðs af því að Ísland ber ótrúlega lýsandi nafn í kínversku, Bingdao, sem þýðir íseyjan.

„Þegar gestir sýningarinnar ganga framhjá skálanum og sjá ísmyndirnar þá vita þeir strax hvaða þjóð á þennan skála. Það má því segja að við höfum einkenni sem margar aðrar þjóðir skortir.“- mlþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×