Enski boltinn

Hólmar Örn: Mér hefur verið að ganga mjög vel

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. Mynd/Stefán

U-21 árs landsliðsmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson er greinilega að finna sig vel hjá KSV Roeselare í belgísku deildinni en þar er hann á láni frá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham.

Hólmar Örn er í viðtali á opinberri heimasíðu Lundúnafélagsins þar sem hann greinir frá því að hann kunni vel við lífið í Belgíu innan vallar sem utan en fyrir hjá belgíska liðinu er Bjarni Þór Viðarsson, liðsfélagi Hólmars Arnar hjá U-21 árs landsliðinu.

„Mér hefur verið að ganga mjög vel. Við töpuðum reyndar fyrstu tveimur leikjunum eftir að ég kom en vorum óheppnir í bæði skiptin. Eftir það höfum við náð frábærum úrslitum og eru til að mynda komnir í undanúrslit í bikarnum.

Þetta er búið að vera frábært reynsla fyrir mig að spila reglulega leiki með aðalliði og ég nýt þess að spila með liðinu og fótboltinn hér er ekkert svo ólíkur enska boltanum. Ég er líka loksins búinn að koma mér ágætlega fyrir og Bjarni, liðsfélagi minn hjá U-21 árs landsliði Íslands og KSV Roeselare, hefur hjálpað mér með það og við erum mikið að hanga saman.

Vonandi nær liðið bara að halda áfram að spila vel og halda sér frá fallsvæðinu því það eru margir stórir leikir framundan til dæmis á móti Anderlecht og Club Brugge," segir Hólmar Örn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×