Innlent

Segir birgja vera þjakaða af margra ára fákeppni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gerald gerir athugasemdir við forsendur könnunarinnar. Mynd/ Stefán.
Jón Gerald gerir athugasemdir við forsendur könnunarinnar. Mynd/ Stefán.
Verðkönnun ASÍ á verðlagi lágvöruverðsverslana sem kynnt var í dag sendir skýr skilaboð til Samkeppniseftirlitsins, segir Jón Gerald Sullenberger í yfirlýsingu til fjölmiðla vegna verðlagskönnunar ASÍ. Í könnuninni kemur fram að vörukarfa ASÍ er 22% dýrari í Kosti en í Bónus.

Jón Gerald segir að innlendir birgjar séu þjakaðir af margra ára fákeppni á matvörumarkaði. Það sjáist af því að Kostur sé fyllilega samkeppnisfær með þær vörur sem verslunin flytur sjálf inn, en ekki aðrar.

„Vegna hringamyndunar sem hefur fengið að þróast nær óáreitt á undanförnum árum á Íslandi, þá er hluti neytenda að niðurgreiða vörur fyrir aðra. Stærsti aðilinn nær inn hagnaðinum í gegnum aðrar keðjur sínar og neyðir birgja til að velta kostnaðinum yfir á samkeppnisaðila þeirra. Þetta ástand á ekkert skylt við heilbrigða samkeppni og endanum eru það heimilin í landinu sem borga brúsann," segir Jón Gerald.

Jón Gerald gerir athugasemdir við forsendur könnunarinnar og segir meðal annars að í könnuninni sé borið saman verð á lambalæri frá haustslátrun 2008 við lambalæri af nýslátruðu 2009. Þá sé kjúklingur sem aðrar verslanir í könnuninni selja undir eigin merkjum ekki sambærilegur að gæðum og kjúklingur frá Móum sem Kostur selur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×