Enski boltinn

Redknapp tilbúinn að láta Pavlyuchenko fara

Ómar Þorgeirsson skrifar
Roman Pavlyuchenko.
Roman Pavlyuchenko. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Harry Redknapp hjá Tottenham viðurkennir að hann reikni fastlega með því að framherjinn Roman Pavlyuchenko muni yfirgefa herbúðir félagsins í dag en það muni þó aðeins gerast ef sómasamlegt kauptilboð berist í leikmanninn.

Tottenham hefur nýverið neitað nokkrum kauptilboðum frá Birmingham í hinn 28 ára gamla landsliðsframherja Rússlands en Redknapp reiknar frekar með því að hann fari til Rússlands.

„Ef að rétt kauptilboð berst þá myndi ég glaður sleppa hendinni af Pavlyuchenko og leyfa honum að fara. Hann er búinn að gera öllum ljóst að hann vilji fara frá félaginu og eins og staðan er núna finnst mér líklegast að hann fari aftur til Rússlands," segir Redknapp í viðtali við Sky Sports fréttastofuna.

Pavlyuchenko kom til Tottenham frá Spartak Moskvu sumarið 2008 og hefur nú verið sterklega orðaður við að snúa aftur á fornar slóðir en Zenit frá Pétursborg hefur einnig sýnt leikmanninum áhuga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×