Fótbolti

Messi tippar á England á HM

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Messi og Maradona á landsliðsæfingu.
Messi og Maradona á landsliðsæfingu. Mynd/AP
Lionel Messi, besti leikmaður heims, tippar á Englendinga á HM. Hann segir að liðið sé á meðal þeirra liða sem geta náð alla leið í Suður-Afríku.

Spánn og Brasilía eru efst hjá veðbönkum til að verða Heimsmeistari en Messi segir England vera jöfn þeim í styrkleika. „Ég held að sterkustu liðin núna séu Spánn, England og Brasilía," sagði argentínski framherjinn.

„Englendingar eru mjög góðir, þeir áttu auðvelda undankeppni og eru harðir af sér," sagði Messi en Fabio Capello, þjálfari Englands, sagði einmitt fyrir skemmstu að Argentína gæti náð langt þar sem þeir hefðu hæfileikaríkustu leikmennina innan sinna raða.

„Vonandi verður þetta mitt HM, HM Argentínu og við æltum að reyna að standa undir væntingum og vinna," sagði Messi sem hrósar einnig goðsögninni Diego Maradona.

„Það var skrýtið að hafa hann sem þjálfara í fyrstu. Í sannleika sagt er hann nokkuð tilkomumikill. En við erum orðnir vanir honum og þetta er alveg eðlilegt núna. Hann er mjög náinn leikmönnunum og hann er eins og einn af strákunum. Maradona hefur alltaf verið mjög indæll við mig," sagði Messi.

Argentína er með Nígeríu, Suður-Kóreu og Grikklandi í riðli á HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×