Innlent

Gekk berserksgang: „Samviska mín er hrein“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Rúða í þessari millihurð brotnaði þegar maðurinn gekk berserksgang.
Rúða í þessari millihurð brotnaði þegar maðurinn gekk berserksgang.

Karlmaður sem gekk berserksgang hjá umboðsmanni skuldara fyrr í dag segist ekki sjá eftir neinu. Hann gengst við hegðun sinni en segist langþreyttur úrræðaleysi þegar kemur að málefnum skuldara. „Ég varð brjálaður og skemmdi hluti. Mér þykir reyndar sárt að heyra að fólki hafi verið brugðið. Ég efast ekkert um það. Ég er stór og mikill en ég ætlaði ekki að hræða neinn. Ég bara missti algjörlega stjórn á mér," segir maðurinn.

Hann treystir sér ekki til að koma fram undir nafni konu sinnar vegna. „Konan mín skammast sín fyrir mig," segir hann og vísar þar til þess að henni finnst hann hafa farið yfir strikið með hegðun sinn á skrifstofu umboðsmanns skuldara í dag. En það er ekki eina ástæðan.

Maðurinn byrjaði í nýrri vinnu fyrir um þremur mánuðum síðan og óttast hann að missa starfið ef nafn hans birtist opinberlega.

Fréttastofa sagði frá því að starfsfólk embættisins hefði þurft á áfallahjálp að halda eftir atvikið en maðurinn henti í gólfið tölvu þess ráðgjafa sem hann var að ræða við, auk þess sem hann braut niður skilrúm og skellti hurð svo harkalega að rúðan í henni brotnaði.

Skrifstofa umboðsmanns skuldara var lokuð eftir hádegi í dag vegna atviksins sem er litið mjög alvarlegum augum. Starfsfólk fékk þá tíma til að jafna sig og voru iðnaðarmenn kallaðir til að laga skemmdir.



Býst við að vera kærður

Maðurinn segist fastlega búast við að vera kærður en lögregla var kölluð á vettvang í dag.

Fjölskylda mannsins leitaði fyrst til Ráðgjafastofu heimilanna fyrir um ári síðan. Þá var maðurinn atvinnulaus. Hann segir að honum hafi verið ráðlagt að sækja um sértæka skuldaaðlögun hjá bönkunum. Honum var hins vegar hafnað því hann var atvinnulaus. Alls hafa um 120 manns fengið að nýta sér sértæka skuldaaðlögun á síðustu tveimur árum, að uppfylltum skilyrðum.

Embætti umboðsmanns skuldara tók síðar við verkefnum Ráðgjafastofu heimilanna en maðurinn hefur enga úrlausn mála sinna fengið. Hann er afar reiður og finnst hann í sífellu ganga á veggi.

Pína og niðurlæging

Honum þykir leitt að starfsfólki hafi þótt sér ógnað af hegðun hans í dag og þurft á áfallahjálp að halda. En reiðin kraumar undir. „Ekki var mér boðin áfallahjálp þegar ég leitaði eftir aðstoð hálf grátandi," segir hann. „Frá því ég gekk þarna inn hefur þetta ekki verið annað en djöfulsins pina og niðurlæging. Ég er búin að fá mig fullsaddan."

Fékk nýja vinnu

Maðurinn fékk vinnu fyrir þremur mánuðum síðan og bjóst þá við að hagur fjölskyldunnar myndi vænkast. Hann segir að það hafi þó ekki verið raunin því afborganir af öllum skuldum hafi verið hækkaðar þannig að hann hefði nú minna á milli handanna en þegar hann var atvinnulaus. „Þetta er vítahringur," segir hann. Honum finnst engin lausn hafa komið fram í málum hans og fjölskyldunnar af hálfu embættismanns skuldara eða annarra sem eiga að aðstoða fólk í skuldavanda. Hann telur að þau úrræði sem stjórnvöld veita embættinu vera af skornum skammti. „Þú mokar ekki skurð með hníf og gaffli," segir hann.

Beraði sál sína

Eins mjög og hann harmar að hafa valdið starfsfólki umboðsmanns skuldara hugarangri þá er hann afar ósáttur við meðferð sinna mála. „Ég óskaði eftir að hitta umboðsmann skuldara en mér er alltaf vísað á nýjan og nýjan ráðgjafa. Ég er endurtekið að bera sál mína fyrir ókunnugu fólki," segir hann.

Þegar á heildina er litið segist hann ekki sjá eftir hegðun sinni í dag. „Samviska mín er hrein. Ég sé ekkert að því að láta tilfinningar sínar í ljós," segir hann.

Eins og áður segir býst hann við að vera kærður vegna hegðunar sinnar og krafinn um skaðabætur vegna þess tjóns sem hann olli.

Skrifstofa umboðsmanns skuldara opnar aftur í fyrramálið.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×