Innlent

Landsvirkjun ætlar að verða gullkvörn

Landsvirkjun kynnti í dag áform sín um að fimmfalda arðsemi fyrirtækisins á næstu tuttugu árum og skila 140 milljarða króna hagnaði á ári.

Troðfullur salur á Hilton Nordica hótelinu hlýddi á framtíðarsýn ráðamanna Landsvirkjunar og viðbrögð fjármálaráðherrans, Steingríms J. Sigfússonar, voru þau að tala um gullkvörn og að stækka þyrfti ríkiskassann til að rúma allan gróðann.

Aukinn hagnaður kemur ekki sjálfkrafa heldur byggist á því að raforkuframleiðslan verði tvöfölduð. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kveðst telja að sátt náist um slíka aukningu en telur hins vegar óvíst hvort sátt verði um mikið meira en það.

En það á líka að fimmfalda tekjurnar á sama tíma. Forsendan er spá um að raforkuverð í Evrópu tvöfaldist á næstu 20 árum, og verð til stóriðnaðar á Íslandi fylgi sömu þróun, en verð til almennings og smærri fyrirtækja á Íslandi standi í stað.

Stóriðjan skilar 80 prósentum af tekjum Landsvirkjunar og því er aðalatriðið að hækka verðið til hennar verulega. Hörður segir að endurskoðunarákvæði séu í öllum stóriðjusamningunum og Landsvirkjun sé núna einnig að semja um tíðari endurskoðanir. Landsvirkjun leggi hins vegar áherslu á að bjóða þessum fyrirtækjum áfram mjög samkeppnishæf verð.

Og svona sjá Landsvirkjunarmenn að arðgreiðslugetan muni aukast og árlegur gróði verði árið 2030 kominn í 1300 milljónir dollara, eða 140 milljarða króna, og telja þó spá um hækkun raforkuverðs varfærna.

Hörður segir raforku þegar hafa hækkað mjög mikið í verði og hún muni hækka áfram. Það muni valda mikilli verðmætasköpun á Íslandi. Það verð sem Landsvirkjun sé að stefna að eftir 20 ár sé samt lægra en raforkuverð í Skandinavíu í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×