Innlent

Geimverufræðingur efast ekki - Gnarr er þó ekki geimvera

Magnús Skarphéðinsson,formaður Hins Íslenska Geimverufélags, segist ekki efast um að ljósagangurinn í Árbæ í gærkvöldi sem Vísir hefur greint frá sé geimskip á ferð um himininn. Hann er hinsvegar á því að Jón Gnarr fari með rangt mál þegar borgarstjórinn kallar sig geimveru.

Hann segist kannast við fjölmörg svipuð dæmi og nokkur hér á landi. „Það eru til svona „tif - UFO", sem blikka svona og hendast til og frá. „Þetta hefur greinilega svoleiðis einkenni og slíkt er mjög þekkt fyrirbæri."

Magnús segist hafa heyrt fjölmargar sögur af svipuðum fyrirbærum hér á landi. „Einu sinni var par á ferð norður í Aðaldal og þau sáu ljós sem tifaði svona, nákvæmlega eins og ég sé á þessu myndbandi. Ég hef líka heyrt af svipuðum atburði á Suðurnesjunum," segir Magnús.

Ítarleg rannsókn leiðir í ljós að Gnarr er ekki Geimvera 

Magnús hefur nú fyrir hönd félagsins sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Af gefnu tilefni vill Hið Íslenska Geimverufélag lýsa því yfir að hr. Jón Gnarr er alls ekki geimvera, þrátt fyrir yfirlýsingar sínar þaraðlútandi. Því þó sum ytri hegðunareinkenni borgarstjórans og útlit gætu bent til að svo sé, þá er svo alls ekki eftir nánari rannsókn félagsins á málinu.

Hr. Jón Gnarr villir á sér heimildir þegar hann segist vera frá öðrum hnöttum. Maðurinn hefur bæði kennitölu og jarðneska foreldra og þekkta en vafasama fortíð. Hann hefur eftir athugun félagsins eingöngu sama pólitíska sleifaralags-syndrómið og flestir aðrir annars og þriðja flokks stjórnmálamenn sem lítið geta annað en svikið loforð sín.

Það er gjörólíkt flestum eða öllum geimverum sem heimsótt hafa jörðina og við þekkjum flestar af góðu einu. - Þessu lýsum við hér með yfir að viðlögðum vísindalegum heiðri Hins Íslenska Geimverufélags.

f.h. Geimverufélagsins,

Magnús H. Skarphéðinsson formaður.








Tengdar fréttir

„Fljúgandi furðuhlutur“ í Árbænum

Lesandi Vísis sendi ritstjórninni þetta athyglisverða myndband þar sem sjá má blikkandi ljós á næturhimninum. Myndbandið var tekið klukkan 18:45 í Árbænum í gærkvöld þegar myndatökurmaðurinn var að koma heim úr vinnunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×