Lífið

Handrit Hellisbúans fer í hring

Til New York, París og Þórshafnar Jóhannes Haukur og Rúnar Freyr hafa gert enska útgáfu af íslenska Hellisbúanum sem verður hugsanlega notuð í New York
Fréttablaðið/Vilhelm
Til New York, París og Þórshafnar Jóhannes Haukur og Rúnar Freyr hafa gert enska útgáfu af íslenska Hellisbúanum sem verður hugsanlega notuð í New York Fréttablaðið/Vilhelm

Leikararnir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Rúnar Freyr Gíslason hafa síðan um jólin setið sveittir við að þýða íslensku útgáfuna af Hellisbúanum yfir á ensku. Rétthafi verksins, Theater Mogul, óskaði eftir því að fá enska útgáfu af íslensku leikgerðinni en hún verður hugsanlega notuð þegar verkið verður sett upp í New York og París.

„Ég sendi þeim handritið fyrir tveimur dögum síðan og nú er bara að sjá,“ segir Jóhannes Haukur og viðurkennir að þetta sé nokkuð skondið. „Við fengum náttúrlega ensku útgáfuna sem Sigurjón Kjartansson þýddi. Ég og Rúnar Freyr staðfærðum þá útgáfu síðan nokkuð, breyttum aðeins tímaröðinni og bættum inn nokkrum hlutum og þeir hjá Theater Mogul voru mjög ánægðir með það og vildu fá okkar útgáfu yfir á ensku, þannig að þetta fer eiginlega hringinn,“ segir Jóhannes um þetta flókna ferli sem fór í gang um jólin. Leikarinn segir ekki mikla peninga í spilinu fyrir sig og Rúnar, þeir fái auðvitað einhverja smáaura fyrir sinn snúð.

En það er meira á döfinni hjá þeim Hellisbúa-félögum. Því undirbúningur fyrir uppsetningu verksins í Færeyjum er kominn á fullt. Samkvæmt heimldum Fréttablaðsins var það Eivör Pálsdóttir sem kom hlutunum í réttan farveg eftir að hún sá sýninguna í Íslensku óperunni. Jóhannes Haukur leikur hlutverk Hellisbúans í Færeyjum þegar og ef af verður. „Ég bý vel að þeim þremur árum sem ég bjó þarna; þarf örugglega að læra flottu orðin utanað en ég er með góðan grunn,“ segir Jóhannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.