Innlent

Handrukkarar rændu manni og óku með hann til Reykjavíkur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir að hafa ráðist inn á heimili manns í Reykjanesbæ þann 19. febrúar í fyrra, slá og sparka í höfuð hans og líkama og ógna honum með hnífi.

Þeir þvinguðu manninn upp í bifreið og ók annar handrukkarinn bifreiðinni til Reykjavíkur á meðan hinn handrukkarinn sat í aftursætinu hjá manninum með hníf í hendi sem hann ógnaði honum með og hótuðu þeir honum stórfelldum líkamsmeiðingum yrði hann ekki við kröfum þeirra um peningagreiðslu vegna skuldar sem þeir sögðust eiga hjá honum. Ennfremur létu þeir manninn hringja í fósturföður sinn og hótuðu fósturföðurnum að þeir myndu ganga frá manninum sæi hann ekki til þess að skuldin yrði greidd.

Handrukkararnir létu ekki af háttsemi sinni fyrr en lögregla stöðvaði bifreiðina á gatnamótum Kleppsvegar og Langholtsvegar. Þeir játuðu sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Aðalmeðferð í málinu gegn mönnunum fer fram þann 12 febrúar næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×