Lífið

Með fálkaorðuna í beinni

Eva María Jónsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir dagskrárgerðarkonur komust að því að þær eru báðar í nautsmerkinu. 
Fréttablaðið/stefán
Eva María Jónsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir dagskrárgerðarkonur komust að því að þær eru báðar í nautsmerkinu. Fréttablaðið/stefán

Sjónvarpskonurnar vinsælu, Eva María Jónsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, verða kynnar í undankeppni Eurovision-sönglagakeppninnar í ár líkt og í fyrra.

Eva María og Ragnhildur Steinunn hófu undirbúning fyrir útsendinguna stuttu fyrir jól en segja tónlistina vera í aðalhlutverki í þáttunum.

„Við trúum því og treystum að þessi lög séu það skemmtileg að þau verði lífið og sálin í þættinum, við þurfum því ekki að hafa of mikið fyrir því að finna upp á einhverju skemmtilegu sjálfar. Við fáum þó gest til okkar í hverjum þætti og með honum einn leyni­gest,“ útskýrir Eva María og segir fyrsta gestinn vera Jóhönnu Guðrúnu, sigurvegara söngkeppninnar frá í fyrra. Þegar þær eru inntar eftir því hvort þær muni klæða sig í stíl líkt og í fyrra segja þær það enn óákveðið.

„Þetta snerist svolítið í höndunum á okkur í fyrra. Við vildum ekki vera með búninga-„show“ en svo fengu fötin samt alltof mikla athygli. Ragnhildur Steinunn var að hugsa um að vera með fálkaorðu, sem hún hefur líklega fundið í einhverju morgunkorni og ég ætla að reyna að finna eina líka, en við erum ekki búnar að ákveða í hvaða fötum við verðum,“ segir Eva María hlæjandi og Ragnhildur Steinunn bætir við: „Það var sérstaklega gaman í fyrra þegar við áttum að velja föt því við enduðum einhvern veginn alltaf á því að kaupa nærföt, sem skilaði sér kannski ekki beint í prógrammið en okkur leið mjög vel í þeim.“

Stúlkurnar segja samstarfið ganga vel enda eigi þær ýmislegt sameiginlegt. „Við erum alltaf að komast að því að við eigum meira og meira sameiginlegt. Við erum báðar Jónsdætur og erum báðar naut. Ég tjekkaði meira að segja á því í Íslendingabók hvort við værum skyldar, en við erum það nú ekki,“ segir Eva María. Báðar hlakka þær mikið til undankeppninnar og segja alltaf gaman að vera í beinni útsendingu því stemningin í sjónvarpssalnum sé oftast lífleg og góð.

„Það eina leiðinlega við að vera kynnir er að maður má hvorki halda með lagi né kjósa, við neyðumst til að vera algjörlega hlutlausar í þeim málum. En við kjósum bara um Icesave í staðinn,“ segir Eva María og hlær.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.