Fótbolti

Einhverjir leikir á EM 2012 spilaðir í Þýskalandi eða Ungverjalandi?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA.
Michel Platini, forseti UEFA. Mynd/AFP
Þýskaland og Ungverjaland gætu verið beðin um að halda einhverja af leikjunum á EM 2012 ef Úkraínumönnum tekst ekki að klára byggingu leikvanga sinna fyrir keppnina. Þetta er haft eftir Michel Platini, forseta UEFA, sem heimsótti Úkraínu í síðasta mánuði.

Pólland og Úkraína halda Evrópumótið í knattspyrnu eftir tvö ár og hvor þjóð átti að leggja til fjóra leikvanga. Framkvæmdir við vellina í Úkraínu hafa hinsvegar dregist mikið á eftir áætlun og nú er staðan svo slæm að UEFA mun ákveða það í júní hvort keppnin geti yfir höfuð farið fram í Úkraínu.

Pólland getur bætt við tveimur leikvöngum sem þýðir að það þyrfti að finna stað fyrir hina tvo, annaðhvort í Þýskalandi eða í Ungverjalandi, nágrannaríkjum Póllands.

Platini segist þó ekki vera búinn að gefa upp vonina um að Úkraína geti haldið keppnina. Úkraínumenn eru að reyna að gera allt til þess að standa við sínar skuldbindingar og heimamenn þar hafa lofað Platini að þeir verði búnir að klára vellina í tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×