Fótbolti

Didier Drogba og félagar úr leik í Afríkukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba sést hér á ferðinni í leiknum.
Didier Drogba sést hér á ferðinni í leiknum. Mynd/AFP

Didier Drogba og félagar í landsliði Fílabeinsstrandarinnar eru úr leik í Afríkukeppninni eftir 2-3 tap fyrir Alsír í framlengdum leik í átta liða úrslitunum í gær. Gana komst einnig áfram með 1-0 sigri á heimamönnum í Angóla. Hinir tveir leikir átta liða úrslitanna fara fram í dag.

Það var varamaðurinn Hameur Bouazza sem tryggði Alsír sigurinn með skallamarki í upphafi framlengingarinnar en Alsír hafði tvisvar náð að jafna leikinn í venjulegum leiktíma þar af í seinna skiptið í uppbótartíma aðeins skömmu eftir að Keita hafði skoraði stórglæsilegt mark og komið Fílabeinsströndinni í 2-1.

Kolo Toure skoraði reyndar mark á lokasekúndum framlengingarinnar en markið var ranglega dæmt af vegna rangstöðu.

Didier Drogba var ólíkur sjálfum sér og sást ekki stærsta hluta leiksins en mestu vandræði liðsins var þá grátleg dekkning í vörninni sem kostaði þrjú mörk og ótal dauðafæri til viðbótar.

Bæði Fílabeinsströndin og Alsír eru á leiðinni á HM í sumar en Alsírbúar hafa heldur betur lagað sinn leik frá því að þeir steinlágu 3-0 á móti Malaví í fyrsta leik. Slök frammistaða Fílabeinsstrandarinnar hlýtur hinsvegar að draga úr miklum væntingum fyrir liðið á HM sem er nú haldin í Afríku í fyrsta sinn næsta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×