Innlent

Skálmöld á Laugavegi

Eiturlyfjasala, vændi og ofbeldi er daglegt brauð á aðalverslunargötu höfuðborgarinnar, Laugaveginum. Þetta segir verslunareigandi sem vill sýnilegri löggæslu svo að gestir miðborgarinnar fái frið fyrir óreglufólki.

Það eru sérstaklega verslunareigendur í kring um barinn Monte Carlo sem kvarta. Þeir segja að staðnum fylgi ónæði, drykkjulæti og þaðan af verra. Ástandið sé það slæmt að starfsfólk verslana á þessu svæði óttist hreinlega stundum um öryggi sitt.

„Það er eiturlyfjasala, vændi, barsmíðar, mikið ofbeldi og það ljótasta sem er til," segir kona Anna Þóra Björnsdóttir.

Pétur Arason stundaði verslunarrekstur um árabil á laugavegi. Hann er nú hættur að hluta til vegna ástandsins. „Það hefur verið ráðist á mig tvisvar og ég fótbrotinn í annað skiptið," segir Pétur sem upplifir sig ekki öruggan á verslunargötunni.

„Það eru barir við Laugaveginn sem ekkert eftirlit virðist vera með og því miður er hættuástand í kringum þá," segir Pétur.

Monte Carlo er á nú eins konar skilorði eftir að borgarráð fjallaði um málið í febrúar. Þar var meðal annars vitnað til bréfa frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að rekstur Monte Carlo valdi verulegu ónæði og að gestir staðarins áreiti vegfarendur og séu til vandræða eins og það er orðað. Borgarráð samþykkti þrátt fyrir þetta að leggja til að rekstarleyfið yrði framlengt til eins árs, en með því skilyrði að það verði ekki framlengt að ári liðnu nema að ónæðið snarminnki. En á meðan vill verslunarfólkið við Laugaveg sýnilegri löggæslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×