Innlent

Jón Gnarr vill verða friðarborgarstjóri

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag að Reykjavíkurborg sæki um inngöngu í samtökin Mayors for Peace. Markmið samtakanna er að kjarnorkuvopnum verði útrýmt í heiminum fyrir árið 2020.

Jafnframt leggja þau sitt af mörkum við að útrýma hungursneyð og fátækt, styðja við mannréttindi og verndun umhverfisins í því skyni að stuðla að heimsfriði.

Jón Gnarr borgarstjóri sagði við þetta tilefni að sem höfuðborg í herlausu landi eigi Reykjavík að vera leiðandi í því að beita sér fyrir heimsfriði.

Samtökin voru stofnuð árið 1982 af þáverandi borgarstjórum Hiroshima og Nagasaki og eru um 4.200 borgir í 144 löndum aðilar að samtökunum í dag. Þátttaka í samtökunum er ókeypis.

Imagine Peace friðarsúla Yoko Ono í Viðey og kertafleyting til minningar um fórnarlömb kjarnorkusprenginganna á Hiroshima og Nagasaki eru meðal friðarverkefna sem eru fastir liðir í borginni og minna á mikilvægi heimsfriðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×