Fótbolti

Ajax hollenskur bikarmeistari - Suarez og De Jong með tvennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suárez.
Luis Suárez. Mynd/AFP
Ajax tryggði sér örugglega hollenska bikarmeistaratitilinn í kvöld með 4-1 sigri á Feynenoord í seinni úrslitaleik liðanna sem fram fór á heimavelli Feynenoord. Ajax vann þar með 6-1 samanlagt og sinn fyrsta stóra titil í þrjú ár eða síðan að félagið varð bikarmeistari 2007.

Þetta er í 18. sinn sem Ajax verður hollenskur bikarmeistari. Martin Jol, fyrrum þjálfari Tottenham, þjálfar Ajax en liðið rétt missti meistaratitilinn til Twente Enschede um síðustu helgi þar sem liðið var aðeins einu stigi á eftir nýju meisturunum.

Ajax vann fyrri leikinn á móti Feynenoord 2-0 á heimavelli þar sem Siem de Jong skoraði bæði mörkin. Siem de Jong skoraði einnig tvö mörk í leiknum í kvöld alveg eins og fyrirliðinn Luis Suárez.

Luis Suárez hefur alls skorað 49 mörk í öllum keppnum á tímabilinu en hann var á dögunum kosinn knattspyrnumaður ársins í Hollandi. Hann mun væntanlega vera í eldlínunni með landsliði Úrúgvæ á HM í Suður-Afríku í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×