Innlent

Lögmenn minna dómara á hófsemi

Lárentsínus Kristjánsson formaður Lögmannafélagsins.Fréttablaðið/stefán
Lárentsínus Kristjánsson formaður Lögmannafélagsins.Fréttablaðið/stefán

Lögmannafélag Íslands hefur sent formanni Dómarafélags Íslands bréf í tilefni af húsleitum sem dómarar hafa heimilað á lögmannsstofum eftir hrun. Afrit af bréfinu var sent dómsmálaráðherra.

Í bréfinu er áréttað að lögmenn séu bundnir þagnarskyldu um hvaðeina sem við kemur starfi þeirra. Þeir skuli aldrei, án endanlegs dómsúrskurðar sem beinist að þeim eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar um skjólstæðinga.

„Í þessu felst að öll frávik frá meginreglunni ber að túlka þröngt og gera verður ríka kröfu til dómstóla að þeir tryggi að ekki verði gengið lengra en nauðsyn krefur hverju sinni. Þannig verður að gera kröfu til þess að heimild til húsleitar sé vandlega rökstudd og sé takmörkuð við tiltekin gögn, á tilteknu tímabili, í nánar tilteknu máli. Sé þessa ekki gætt er hætta á að gengið verði of langt gegn rétti skjólstæðings og þá um leið trúnaðarskyldu lögmanna, sem aftur grefur undan réttarkerfinu í heild sinni,“ segir í bréfinu.

Þótt samfélagið gangi í gegnum sérstaka tíma og álag sé mikið á dómstólum megi ekki gefa afslátt af þeim grundvallarreglum sem hingað til hafi gild. Hvetur Lögmannafélagið Dómarafélagið til að minna félagsmenn sína á að missa ekki sjónar á þeim í umrótinu. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×