Innlent

Menntaráð tekur mið af tillögum reykvískra ungmenna

"Markmiðið er að auka áhrif þeirra í ákvörðunum um mikilvæg mál", segir Marta Guðjónsdóttir formaður starfshópsins og fulltrúi í menntaráði.
"Markmiðið er að auka áhrif þeirra í ákvörðunum um mikilvæg mál", segir Marta Guðjónsdóttir formaður starfshópsins og fulltrúi í menntaráði.

Á fundi menntaráðs í dag kynntu fulltrúar í Ungmennaráði Breiðholts tillögur um gæði kennslu í grunnskólum og betri menntun í lífsleikni. Æskufólk í Breiðholti vill að kennsla í grunnskólum verði samræmd og námskrár þrengdar með það að sjónarmiði að allir nemendur hafi jafna grunnþekkingu þegar komið er á menntaskólastig.

Í tilkynningu segir að þannig standi allir nemendur jafnt að vígi þegar sótt er um inngöngu í framhaldsskóla. Þá telur Ungmennaráðið að bæta megi til muna lífsleiknikennslu í grunnskólum og vill að samin verði námskrá fyrir það fag, s.s. með markmiðum í kynfræðslu og forvarnarstarfi.

Tveir fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna; Eva Brá Axelsdóttir og Arnór Gunnar Gunnarsson, fylgdu þessum tillögum úr hlaði á fundi menntaráðs í dag. Í bókun af fundi ráðsins segir m.a. :



„Í stefnu og starfsáætlun Menntasviðs er lögð áhersla á að skólinn komi eins og kostur er til móts við ólíkar þarfir, áhuga og námstíl nemenda með einstaklingsmiðuðu námi og fjölbreyttum námsleiðum. Framhaldsskólar hafa jafnframt leitast við að koma til móts við nemendur með margvíslegum námstilboðum. Menntaráð hvetur til áframhaldandi samstarfs grunn- og framhaldsskóla um samfellu í námi og farsæl skólaskil".

Menntaráð hefur áður fengið kynningu á tillögum Reykjavíkurráðs ungmenna og fylgt þeim eftir í stefnumótun sinni, s.s. um að efla fjármálakennslu í grunnskólum sem lið í lífsleiknikennslu og stærðfræðikennslu. Menntaráð hefur skipað starfshóp til að koma með tillögur að nýjum leiðum í forvarnarfræðslu til að stemma stigu við vímuneyslu og kynþáttafordómum ungs fólks. Hópinn munu skipa tveir fulltrúar úr Reykjavíkurrráði ungmenna, þrír fulltrúar stjórnmálaflokka og fulltrúar skólastjóra og kennara.

,,Athygli vekur aðfulltrúar úr Ungmennaráði Reykjavíkur eiga sinn fulltrúa í þessum starfshópi og er það í fyrsta skipti sem ungmenni eiga fulltrúa í slíkum starfshópi á vegum borgarinnar. Markmiðið er að auka áhrif þeirra í ákvörðunum um mikilvæg mál", segir Marta Guðjónsdóttir formaður starfshópsins og fulltrúi í menntaráði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×