Innlent

Varað við hálku

Ökumenn eru minntir á viðvaranir lögreglu og Vegagerðar um mikla hálku á sunnan- og vestanverðu landinu, að minnstakosti. Laun hált er á vegum og hliðargötum þótt akbrautir virðist aðeins vera blautar. Á höfuðborgarsvæðinu er flughált nema á helstu umferðaræðum, þar sem búið er að salta.

Mörg óhöpp urðu í gær vegna óvæntrar hálku, sem ökumenn áttuðu sig ekki á. Tvær bílveltur urðu á Suðurlandi og einn bíll ók utan í vegrið í Kömbum upp úr hádegi í gær, en engan sakaði alvarlega. Mildi þykir að tvennt skyldi sleppa ómeitt í gærkvöldi, þegar bíll þeirra rann af Skagastrandarvegi, þvert yfir þjóðveginn og fór þaðan í loftköstum niður háan kant uns hann staðnæmdist á hjólunum úti í mýri.

Tvær konur slösuðust hinsvegar þegar bíll þeirra valt vestan við Grundarfjörð síðdegis. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti þær og flutti á Landsspítalann í Fossvogi, þar sem þær dvöldu í nótt, þar af önnur á gjörgæsludeild. Hún er þó ekki í lífshættu. Loks sluppu þrjár ungar konur ótrúlega vel, að sögn sjónarvotta, þegar bíll þeirra valt út af veginum á Holtavörðuheiði, nærri Miklagili í gærkvöldi og fór að minnstakosti tvær veltur. Þær voru útskrifaðar eftir aðhlynningu á heilsugæslustöð.

Öll þessi óhöpp og slys eru rakin til óvæntrar hálku, sem enn er um suðvestanvert landið að minnsta kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×