Innlent

BHM gagnrýnir seinagang vegna yfirfærslu málefna fatlaðra

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM
Bandalag háskólamanna gagnrýnir seinagang samráðshóps á vegum félagsmálaráðuneytisins sem unnið hefur að um réttindum og kjörum starfsmanna vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Í samráðshópnum eiga sæti fulltrúar stéttarfélaga, Samtaka íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.

Í tilkynningu sem BHM sendir frá sér segir að starf hópsins hafi í fyrstu gengið vel, eða fram til loka síðasta árs. „Þegar í ljós að kom í lok janúar sl. að ágreiningur var á milli aðila um grundvallarþætti á borð við félagafrelsi, starfsöryggi og að starfsmenn nytu sömu réttinda og opinberir starfsmenn höfðu árin 1990 og 1996 við yfirflutning á heilbrigðisþjónustu og grunnskólanum, sigldi samstarfið í strand. Ekki var boðað til fundar í 10 mánuði eða þar til gengið var að kröfu fulltrúa okkar og fundur boðaður 7. október," segir í tilkynningunni.

Síðan þá hefur einn annar fundur verið haldinn en á honum lýsti fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Karl Björnsson framkvæmdastjóri, því yfir að ekki væri ástæða til að nefndin starfaði áfram, þar sem hún væri fallin á tíma. Sveitarfélögin myndu því haga starfsmannamálum með þeim hætti sem þau kysu sjálf. Þessu til áréttingar dreifði Karl bæklingi til fundarmanna um væntanlegt starfsumhverfi starfsmanna. Bæklingurinn hefur verið sendur öllum starfsmönnum málaflokksins, einnig þeim sem sveitarfélög hafa áður tilkynnt að ekki verði tryggð störf en í þeim hópi eru einkum sérfræðingar úr röðum BHM. Vakti þessi uppákoma hörð viðbrögð fulltrúa stéttarfélaganna enda gert alfarið án vitundar þeirra.

BHM lýsir vanþóknun sinni á þessari framkomu og krefst þess skilyrðislaust að vinna nefndarinnar til tryggingar á réttindum starfsmanna haldi áfram. Þess er krafist að fullt tillit verði tekið til sjónarmiða stéttarfélaganna enda samræmast þau áður viðhöfðum vinnubrögðum hins opinbera þegar málefni hafa flust milli stjórnsýslustiga. Annað er mismunun sem verður ekki liðin.

Það er harmað að samráðsferlið skuli komið í þá erfiðu stöðu sem raun ber vitni og að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi klofið sig út úr samstarfinu á þessum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×