Erlent

Eldgosið í Eyjafjallajökli reiði guðs

Eyjafjallajökull fyrstu dagana. Eldgosið hefur reynst vatn á myllu ofsatrúarhópa.
Eyjafjallajökull fyrstu dagana. Eldgosið hefur reynst vatn á myllu ofsatrúarhópa. Mynd Stefán Karlsson

Nokkuð framboð er af trúarlegum útskýringum á eldgosinu í Eyjafjallajökli. Þannig greinir rússneska fréttastofan Interfax frá því að Samband sérfræðinga í rétttrúnaðarkirkjunni segi að gosið og askan sem eldfjallið spúði yfir Evrópu sé vegna reiði guðs yfir réttindum samkynhneigðra í Evrópu og umburðarlyndis Íslendinga gagnvart heiðinni trú.

Bandaríski íhaldsmaðurinn Rush Limaugh segir guð hafa sett gosið af stað vegna vandlætingar á heilbrigðisfrumvarpi forseta Bandaríkjanna.

John Hagee, predikari í San Antonio og stofnandi Sameiningar kristinna manna fyrir Ísrael, segir guð hafa sent gosmökk yfir Bretland vegna þess að bretar hafi fordæmt auglýsingar frá ísraelskum ferðamálaskrifstofum.

Samkvæmt grein The Washington Post er áhugi strangtrúaðra á gosinu í raun barátta um nýja meðlimi í kirkjur þeirra.

Fólk verður óttaslegið þegar það heyrir af náttúruhamförum og klerkar úr öllum áttum hagnýta sér þennan ótta og útskýra hamfarirnar sem trúarlega reiði þrátt fyrir að það sé til dæmis engin rökrétt tenging á milli auglýsingaherferðar í Bretlandi og eldfjalls á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×