Innlent

Dröfn RE farin á hrefnuveiðar

Hrefnuveiðimenn eru komnir af stað og lofa fersku kjöti strax næstu daga. mynd/gunnar bergmann
Hrefnuveiðimenn eru komnir af stað og lofa fersku kjöti strax næstu daga. mynd/gunnar bergmann
Hrefnuveiðimenn héldu til veiða í gær á Dröfn RE og reikna með að ferskt hrefnukjöt verði komið í verslanir á allra næstu dögum. Félag hrefnuveiðimanna mun gera út þrjá báta til hrefnuveiða í sumar. Einn þeirra var keyptur á dögunum og er verið að gera hann sjókláran þessa dagana í Kópavogshöfn. Vestfirðingar eru að gera klárt og ætla til veiða á næstunni.

Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna, segir að Dröfn RE hafi farið í gær til að undirbúa vertíðina. Nauðsynlegt sé að ganga úr skugga um að allt virki sem skyldi, ekki síst byssan. Nýr bátur, sem enn liggur nafnlaus í Kópavogshöfn, sem hrefnuveiðimenn keyptu til veiðanna verður kominn á miðin í byrjun maí.

Kvóti vertíðarinnar er 200 dýr, eins og í fyrra, auk þess sem leyfilegt er að færa tuttugu prósent kvótans á milli ára, samkvæmt reglugerð. Því geta hrefnuveiðimenn veitt 240 dýr. Gunnar segir þó ljóst að svo mörg dýr verði aldrei veidd nú. „Við byggjum á innanlandsmarkaðnum og munum því ekki veiða kvótann. Veiðitíminn er mánuði lengri en í fyrra svo við reiknum með að veiða allt að hundrað dýr. Þó verður því haldið opnu og fer eftir eftirspurn.“ Gunnar bindur vonir við nýjar vörur eins og reykt, grafið og kryddlegið kjöt sem kemur nýtt í verslanir í sumar.

Alls voru veiddar 83 hrefnur á vertíðinni í fyrra.

- shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×