Enski boltinn

Tíu leikmenn Liverpool skelltu erkifjendunum í Everton

Ómar Þorgeirsson skrifar
Dirk Kuyt skorar hér mark Liverpool á Anfield-leikvanginum í dag.
Dirk Kuyt skorar hér mark Liverpool á Anfield-leikvanginum í dag. Nordic photos/Getty

Liverpool skaust upp í fjórða sæti deildarinnar, í það minnsta tímabundið, þegar liðið lagði granna sína í Everton að velli 1-0 á Anfield-leikvanginum en Hollendingurinn Dirk kuyt skoraði eina mark leiksins.

Leikurinn var gríðarlega fast spilaður og dómarinn Martin Atkinson hafði í mörg horn að líta. Hasarinn náði hámarki eftir um hálftíma leik þegar Everton-maðurinn Steven Pienaar fékk gula spjaldið fyrir ljótt brot á Javier Mascherano.

Jamie Carragher hefndi fyrir liðsfélaga sinn andartaki síðar þegar hann straujaði Pienaar niður og hlaut gult spjald fyrir vikið.

Á 34. mínútu átti sér hins vegar stað mikið vafaatriði þar sem varnarmaðurinn Sotirios Kyrgiakos hjá Liverpool hlaut beint rautt spjald fyrir sólatæklingu á miðjumanninum Marouane Fellaini hjá Everton sem slapp sjálfur með skrekkinn þrátt fyrir að stíga gróflega á Grikkjann.

Steven Gerrard komst næst því að skora í fyrri hálfleik þegar skot hans beint úr aukaspyrnu fór í slána á marki Everton en staðan í hálfleik var markalaus.

Liverpool lét liðsmuninn þó ekki á sig fá og þegar tíu mínutur voru liðnar af síðari hálfleik kom Dirk Kuyt heimamönnum yfir með skallamarki af stuttu færi og allt ætlaði um koll að keyra á Anfield-leikvanginum.

Everton náði einhvern veginn aldrei takti í seinni hálfleik og sigur Liverpool var því verðskuldaður. Varamaðurinn Yakubu Alyegbeni komst næst því að jafna leikinn fyrir Everton í blálok leiksins en Pepe Reina var vel á verði í markinu og sló boltann í burtu.

Pienaar fékk svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma þegar gremja gestanna var orðin algjör.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×