Íslenski boltinn

Andri: Fór með fiðrildi í maganum inn í alla leiki

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Andri Marteinsson, þjálfari Hauka.
Andri Marteinsson, þjálfari Hauka.

„Akkurat núna get ég ekki sagt að ég sé búinn að melta þetta. Ég er nokkuð dofinn en annars bara nokkuð góður," sagði Andri Marteinsson, þjálfari Hauka, eftir að fallið var orðið að veruleika þar sem Haukar töpuðu, 3-0, gegn Fylki og Grindvíkingar nældu sér í jafntefli á móti KR.

„Markmið leikmanna var níunda sætið og nú er orðið ljóst að það gekk ekki eftir. Markmið okkar þjálfaranna var hinsvegar að geta fara í hvern leik og geta veitt öllum liðunum í þessari deild einhverja mótspyrnu. Það tókst að mestu leyti og í flestum leikjunum í sumar veittum við góða mótspyrnu og áttum skilið meira í mörgum leikjunum en við fengum. Ég er sáttur með ýmislegt í sumar en alls ekki fallið," sagði þjálfarinn.

Andri segir sumarið hafa verið mikinn lærdóm fyrir alla.

„Ég held að þetta sé gríðarlegur lærdómur fyrir okkur alla og ekki síst klúbbinn. Ég vona að þessi reynsla nýtist félaginu í framhaldinu. Uppbyggingin sem hefur verið heldur bara áfram og þetta fer í reynslubankann," sagði Andri sem reiknar með því að vera áfram þjálfari Hauka.

„Það stefnir allt í það að ég verði áfram. Við ræddum saman í sumar þegar að stjórnin stóð á bak við mig og þá voru menn með ákveðnar hugmyndir á lofti. Þá var rætt og ákveðið að horfa til framtíðar þannig við auðvitað setjumst bara niður og ræðum málin en hvort sem að ég verð eða einhver annar þá kemur það bara til góða það sem fram hefur farið hér í sumar fyrir félagið," sagði Andri í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×