Innlent

„Mottu-mars" - keppt í skeggrækt

„Mottu-mars" er yfirskrift mánaðarlangs átaks Krabbameinsfélags Íslands um karlmenn og krabbamein sem hófst formlega í dag þegar úrvalslið allra helstu sérsambanda landsins í boltaíþróttum skoruðu á hvert annað í mottukeppni - söfnun yfirvaraskeggs. Sala á barmmerkjum fer einnig fram laugardaginn 6. mars 2010 og verður öllum ágóða af söfnunarstarfi átaksins varið til rannsókna, fræðslu, ráðgjafar og stuðnings við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu segir að þetta sé í þriðja sinn sem staðið er fyrir sérstöku átaki um karlmenn og krabbamein og verður það jafnframt eitt umfangsmesta árvekniátak félagsins til þessa.

Eru karlmenn á Íslandi hvattir til þess að safna yfirvararskeggi í marsmánuði til að sýna samstöðu og safna jafnframt áheitum til styrktar baráttunni gegn krabbameini með því að skrá sig til þáttöku í yfirvararskeggkeppninni á vefsíðunni www.karlmennogkrabbamein.is.

Jafnframt fer fram landssöfnun um næstu helgi, nánar til tekið laugardaginn 6. mars 2010, þar sem verða til sölu sérstök barmmerki - mottupinnar - og í lok mánaðarins verður sigurvegari mottukeppninnar valinn við hátiðlega athöfn.

Áskorun - flottasta motta marsmánaðar!

Á heimasíðunni gefst öllum sem sprettur grön kostur á að skrá sig og vera með í keppninni um flottasta yfirvararskegg marsmánaðar - og safna í leiðinni áheitum til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands.

Hægt er að skrá bæði einstaklinga og lið og eins og fyrr segir hafa úrvalslið allra helstu sérsambanda landsins í boltaíþróttum skorað á hvert annað í keppni um söfnun áheita og yfirvararskeggs. Þetta eru lið frá Knattspyrnusambandi Íslands, Handknattleikssambandi Íslands, Körfuknattleikssambandi Íslands og Blaksambandi Íslands og fengu fyrirliðar liðanna af því tilefni tilsöng í dag í skeggræktun og snyrtingu hjá Torfa Geirmundssyni hársnyrti, að því er segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×