Íslenski boltinn

Tryggvi: Hann er nógu klikkaður til að fara á punktinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson. Mynd/Vilhelm
Tryggvi Guðmundsson og félagar í ÍBV unnu 2-0 sigur á Selfossi í kvöld og fylgja Blikum eins og skugginn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta var sterkt að klára þennan leik. Við vissum að þetta væri síðasti möguleikinn fyrir Selfyssinga að halda sé í deildinni og þetta var svolítil barátta. Við náðum inn góðu marki og áttum sjálfsagt að fá eitthvað aðeins meira út úr þessum fyrri hálfleik. Svo komu þeir aðeins grimmari í seinni hálfleik en mér fannst við samt vera með tökin á þessu. Við vinnum þetta nokkuð sannfærandi að ég held," sagði Tryggvi Guðmundsson en hann fékk ekki að taka vítið í lok leiksins.

„Þetta var ákveðið því það er liðið sem gengur fyrir. Nú er ég bara búinn að klúðra tveimur vítaspyrnum og það er tveimur of mikið. Það eru aðrir menn sem að bjóða sig fram og um að gera að ná í annan vinstri fótar mann. Hann skaut reyndar á nákvæmlega sama stað og ég setti hann á móti KR en munurinn var sá að markmaðurinn fór í hitt hornið en ekki hjá mér. Þetta var flott hjá Berta og hann hefur gert þetta áður þótt að hann hafi kannski ekki gert þetta áður í úrvalsdeild. Hann hefur skorað nokkur úr vítum enda nógu klikkaður til að fara á punktinn," sagði Tryggvi í léttum tón.

„Það var ótrúlega sterkt hjá Blikum að vinna KR en ég var einn af mörgum sem bjóst við því að Blikar myndu allavegna ná stigi í kvöld. Þá hefðum við verið með þetta í okkar höndum en Blikarnir sýna okkur að þeir eru með klassalið og að þeir eru heitustu kandidatarnir í að vinna Íslandsmeistaratitilinn," sagði Tryggvi og bætti svo við:

„Við fögnum því að við náðum okkarháleitu markmiðum. Við erum komnir í Evrópukeppni á næsta ári og það er finnst mér vera frábært afrek hjá okkur," sagði Tryggvi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×