Á mælum Veðurstofunnar er ekki hægt að sjá að ný sprunga hafi opnast á Fimmvörðuhálsi eins og raunin er. Að sögn jarðfræðings á vakt eru engin merki um aukinn óróa og engir jarðskjálftar hafa komið fram á mælum.
Það virðist því vera eins með þessa sprungu eins og þá fyrstu að hún hefur ekki gert boð á undan sér. Jarðfræðingur á vakt segir að þá hafi gosóróinn einnig farið mjög rólega af stað eins og nú virðist vera raunin.
Nýja sprungan sýnir þó greinilega að enn sé töluverð virkni í gosinu og að það geti breytt um háttarlag á skammri stund. Því þarf fólk að hafa varann á á svæðinu.