Innlent

Frumvarp um stjórnarráð kemur eftir helgi

Ráðherrum verður fækkað úr tólf í níu um næstu áramót, verði frumvarp forsætisráðherra að lögum.
fréttablaðið/daníel
Ráðherrum verður fækkað úr tólf í níu um næstu áramót, verði frumvarp forsætisráðherra að lögum. fréttablaðið/daníel

Reyna á að leggja frumvarp um breytingar á stjórnarráði fyrir Alþingi eftir helgi. Frumvarpið var rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna í gær, en Vinstri græn frestuðu umræðunni fram á mánudag. Vonir standa til að frumvarpið verði að lögum á þessu þingi og breytingarnar að veruleika um áramótin.

Nokkur styr hefur staðið um efni frumvarpsins og hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opinberlega lýst sig andvígan breytingunum. Það hefur Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, einnig gert. Samkvæmt heimildum blaðsins standa líkur þó til að þingflokkur Vinstri grænna muni samþykkja frumvarpið. Samfylkingin styður frumvarpið. Búast má við að Jón Bjarnason verði einn þeirra ráðherra sem víkja úr stjórninni við breytingarnar.

Breytingarnar eru í takti við það sem kynnt var í stjórnarsáttmálanum, fækkun ráðuneyta úr tólf í níu. Ný og betrumbætt ráðuneyti yrðu umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

Í farvatninu eru einnig breytingar á starfsháttum innan stjórnarráðsins. Snýr það að ábyrgð ráðherra. Skerpt verði á stjórnunar- og eftirlitsskyldum, skyldur ráðherra verða útfærðar enn frekar og verkstjórn forsætisráðherra verður skýrari, svo eitthvað sé nefnt.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×