Innlent

Stúdentar óánægðir með námsval í sumar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nemendur segja að þeim standi ekki eins mikið val til boða og þeir töldu í fyrstu. Mynd/ Anton Brink.
Nemendur segja að þeim standi ekki eins mikið val til boða og þeir töldu í fyrstu. Mynd/ Anton Brink.
Stúdentar við Háskóla Íslands eru síður en svo ánægðir með það námsúrval sem þeim stendur til boða í sumar, segir Jens Fjalar Skaptason, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hann segir að fyrir um það bil tveimur mánuðum hafi Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra tilkynnt að það yrðu um 100 - 200 sumarpróf í boði við Háskólann.

„Eins og staðan er núna hafa háskólayfirvöld ekki uppfyllt þessar yfirlýsingar Katrínar," segir Jens. Listinn yfir þau sumarpróf sem í boði verða var birtur í gær. Sumarnám verður ekki í boði með sama sniði og í fyrra heldur verður um að ræða próf sem stúdentum stendur til boða að taka auk þess sem þeir geta skilað inn verkefnum.

„Þetta er mjög lítið úrval af námskeiðum, ef við horfum bara á þessi námskeið - þessi sumarpróf. Verkefnin eru annað," segir Jens. „Nemendur voru búnir að gera ráð fyrir því að það yrðu 100 - 200 sumarpróf, en svo kemur þessi skellur. Þetta eru námskeið sem að henta ekki næstum því öllum. Það eru mjög margir nemendur sem geta ekki nýtt sér þetta," segir Jens.

Hann segir að niðurstaðan sé alls ekki í takti við það sem menntamálaráðherra hafi lofað. Hann bendir á að ráðuneytið hafi ekki veitt Háskólanum neitt aukið fjármagn til að halda þessi próf. „Þetta virðist vera það eina sem Háskólinn getur útvegað eins og staðan er núna og við erum að leita að leiðum til þess að fá fleiri námskeið í gegn, hvort sem það er í gegnum Háskólann eða í gegnum ríkið," segir Jens.

Í tilkynningu sem Háskóli Íslands sendi frá sér í dag kom fram að skólinn hafi boðið um 60 próf í grunnnámi ásamt 11 sérstökum námskeiðum sem aðeins verða kennd í sumar og ljúki með prófi í ágúst. Í skipulagi skólans væri ekki gert ráð fyrir prófum í ágúst og niðurskurður á rekstrarfé til skólans gerði honum erfitt um vik. Engu að síður reyndi Háskólinn að bjóða upp á eins mörg próf nú í ágúst og kostur væri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×