Enski boltinn

Cole sagður ólmur vilja komast til Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ashley Cole í leik með enska landsliðinu.
Ashley Cole í leik með enska landsliðinu. Nordic Photos / AFP
Enska dagblaðið The Mirror heldur því fram í dag að Ashley Cole hafi mikinn áhuga á því að komast í burtu frá Englandi og semja við Real Madrid á Spáni.

Fram kemur að Real Madrid sé að undirbúa tilboð upp á 30 milljónir punda í Cole og að félagið sé afar vongott um að það sé nóg til að fá kappann.

Cole hefur átt erfitt uppdráttar á þessu ári. Fyrst var ítrekað fjallað um framhjáhald hans í enskum fjölmiðlum en í kjölfarið ákvað eiginkona hans, poppstjarnan Cheryl Cole, að skilja við hann.

Hann varð að vísu tvöfaldur meistari með Chelsea en eftir að England féll úr leik í 16-liða úrslitum HM í Suður-Afríku mun hann vera enn viljugri til að komast í burtu frá Englandi.

Jose Mourinho tók við Real Madrid fyrir skömmu en hann keypti Cole til Chelsea á sínum tíma. Real Madrid mun vera reiðubúið að borga honum hærri laun en Cole fær nú þegar um 120 þúsund pund í vikulaun hjá Chelsea.

Cole skrifaði hins vegar undir nýjan fjögurra ára samning við Chelsea í september síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×