Lífið

Fylgdi eftir manni götunnar

Gamlir vinir
Frosti Jón Runólfsson fylgdi vini sínum, Lofti Gunnarssyni, eftir í heimildarmyndinni Meinvill í myrkrunum lá.
Mynd/spessi
Gamlir vinir Frosti Jón Runólfsson fylgdi vini sínum, Lofti Gunnarssyni, eftir í heimildarmyndinni Meinvill í myrkrunum lá. Mynd/spessi

Frosti Jón Runólfsson, nemi við Kvikmyndaskóla Íslands, gerði stuttmynd um æskuvin sinn sem hefur að mestu búið á götunni undanfarin ár. Myndin verður væntanlega frumsýnd á Skjaldborg á þessu ári.

Stuttmyndin Meinvill í myrkrunum lá fjallar um líf Lofts Gunnarssonar, ungs manns sem hefur að mestu búið á götunni undanfarin ár. Myndin er í leikstjórn Frosta Jóns Runólfssonar.

„Myndin fjallar um íslenska iðjuleysingjann, draumóramanninn, heimspekinginn og fylliraftinn Loft. Þið hafið kannski séð þennan tveggja metra háa, húðflúraða mann ráfa um götur bæjarins með rauðvínsbokku í hönd? Ég og Loftur höfum þekkst frá því við vorum börn og þessi mynd er eiginlega jólagjöf mín til hans. Ég átti efni af honum sem nær aftur til ársins 2001, þá eignaðist ég mína fyrstu kvikmyndatökuvél og gerði mikið af því að taka upp allt sem varð á vegi mínum,“ útskýrir Frosti.

Hann segir hugmyndina að myndinni hafa kviknað eftir að hafa horft á kvikmyndina Stroszek eftir Werner Herzog og datt þá í hug að blanda saman nýju efni með Lofti við annað eldra.

Aðspurður segir hann tökur hafa gengið ágætlega, en tökuliðið samanstóð af Frosta sjálfum og unnustu hans, sem var bílstjóri, aukaleikari og hljóðkona.

„Loftur drekkur svolítið þannig að hann var rallhálfur allar tökurnar. En ég vissi hvað ég var að fara út í og það hefði ekki verið „ekta“ að biðja Loft um að vera edrú á meðan tökum stóð því þá væri ég ekki að skjóta Loft. Hann hefði ábyggilega ekki tekið það í mál hvort eð er.“ Myndin verður að öllum líkindum frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg sem fram fer á Patreksfirði í ár. Frosti er hálfnaður með nám sitt í Kvikmyndaskóla Íslands en hyggst taka sér hlé frá námi þessa önn og ferðast til Filippseyja.

„Ég ætla að flytja upp í fjallaþorp í Sagada, byggja mér kofa og eyða vetrinum þar. Eftir námið mun ég halda áfram uppteknum hætti.“ - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.