Innlent

Oftast strikað yfir Gísla Martein

Gísli er sá frambjóðandi í borgarstjórnarkosningunum sem flestir strikuðu út eða færðu til á lista, eða 3.776 manns.
fréttablaðið/anton
Gísli er sá frambjóðandi í borgarstjórnarkosningunum sem flestir strikuðu út eða færðu til á lista, eða 3.776 manns. fréttablaðið/anton

Tæp nítján prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins, 3.776 manns, strikuðu yfir eða færðu til nafn Gísla Marteins Baldurssonar, sem var í fimmta sæti listans.

Giltu sömu reglur um útstrikanir í sveitarstjórnarkosningum og gilda í alþingiskosningum hefði Gísli fallið niður um sæti og ekki náð að tryggja sér áframhaldandi setu í borgarstjórn.

„Fimmta mann á lista, sem næði fimm sætum í alþingiskosningum, þurfa 14,3 prósent kjósenda listans að strika yfir til að lækka hann um sæti,“ segir Þorkell Helgason kosningasérfræðingur; að því gefnu að stuðningsmenn fimmta mannsins beittu ekki mótleik, svo sem að strika út þann fjórða.

Júlíus Vífil Ingvarsson, í öðru sæti sama lista, strikuðu um fimm prósent út, en sárafáir strikuðu yfir nafn oddvitans Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, eða 81 af tuttugu þúsund kjósendum.

Í öðrum flokkum var hlutfallslega mest strikað yfir nafn Sóleyjar Tómasdóttur, 356 manns, eða 8,4 prósent gerðu það.

Fimm prósent, 580 kjósendur, strikuðu yfir Dag B. Eggertsson í Samfylkingu.

0,4 prósent strikuðu út Jón Gnarr Kristinsson, eða 77 manns. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×