Fótbolti

Ballack: Mikil vonbrigði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Ballack á hækjunum í dag.
Michael Ballack á hækjunum í dag. Nordic Photos / AFP

Michael Ballack segir það vissulega mikil vonbrigði að hann muni ekki spila með þýska landsliðinu á HM í Suður-Afríku í sumar.

Ballack er landsliðsfyrirliði Þjóðverja og á að baki 98 leiki með landsliðinu. Hann meiddist í leik Chelsea og Portsmouth í úrslitum ensku bikarkeppninnar um helgina eftir tæklingu Kevin-Prince Boateng. Ballack verður frá æfingum næstu átta vikurnar.

„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði," sagði Ballack við þýska fjölmiðla. „Það er ansi súrt að fá þessar fréttir 2-3 vikum áður en HM hefst. En svona er fótboltinn. Svona lagað gerist. Lífið heldur áfram."

Ballack mun nú fljúga til Sikileyjar þar sem þýska landsliðið er við æfingar. Fréttirnar komu þjálfurum og leikmönnum sem þar eru staddir í opna skjöldu.

„Michael Ballack er afar mikilvægur leikmaður í okkar liði og hann spilar sérstaklega mikilvægt hlutverk í leikjum sem skipta miklu máli. Þar var hann í aðalhlutverki," sagði Joachim Löw landsliðsþjálfari.

„Við erum auðvitað öll í sjokki. Ég talaði við Michael og hann er mjög vonsvikinn. Hann hafði lagt alla sína orku í að spila með okkur á HM í sumar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×